Friday Mar 04, 2022
#4 Ósýnilega fólkið - Olga
Olga er fimm barna móðir sem ólst upp hjá stórri fjölskyldu fyrir norðan og átti þar frábær uppvaxtarár. Hún stundaði íþróttir og var vinamörg en fór sem unglingur fljótlega að finna fyrir fíknhegðun sem vatt hratt upp á sig. Hennar fyrsta áfall var þegar hún var neydd í fóstureyðingu 15 ára gömul og seinna lenti hún í ljótu ofbeldissambandi með manni sem hún eignaðist þrjú börn með. Hún þurfti að byrja með tvær hendur tómar þegar því sambandi lauk þar sem maðurinn hennar hirti allt sem þau höfðu byggt upp á árunum á undan. Þá kynntist hún öðrum manni sem hún eignaðist önnur tvö börn með en hann beitti hana líka miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi þangað til hann fluttist af landi brott og skildi hana eftir eina með börnin. Olga hefur verið heimilislaus í mörg ár og segir það vera bölvaða þrælavinnu að lifa í því ástandi frá degi til dags. Hana dreymir um að komast í eigið húsnæði þar sem hún getur fengið rými til að vinna úr sínum áföllum og komið sér aftur á beinu brautina.